Nafnbirting

Þegar ég byrjaði á IRCinu nítjánhundruð-níutíuog-eitthvað gáfu nær allar upplýsinga- og hjálparsíður eftirfarandi ráð (á ensku):

 • Notaðu dulnefni eða gælunafn (Nick)
 • EKKI setja þitt rétta nafn í “Full Name” dálkinn.
 • Varastu að gefa upp fullt nafn eða aðrar upplýsingar sem hægt er að rekja til þín til viðmælenda þinna.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá, en eftir stendur að það er mismunandi hvort að menn tjái skoðanir sínar á netinu undir nafni eða ekki.
Sumstaðar í heiminum er jafnvel hættulegt að skrifa undir nafni, þar sem gagnrýni á stjórnvöld eða höfuð landsins getur þýtt fangelsisvist.
Einnig er hættan við að skrifa undir nafni að ef málefnið sem þú ræðir gæti mögulega, kannski, móðgað einhvern öfgahóp þá gætiru verið að leggja þig og þína nánustu í hættu.

Það eru hinsvegar margir sem skrifa undir nafni og eru duglegir við að halda hinum ýmsu fánum á lofti, og ekkert nema gott um það að segja.

Sumir miðlar, t.a.m. “Moggabloggið” tók þá stefnu að notendur verða að gefa upp kennitölu við skráningu.
Að vísu er ekki gerð krafa um að notendur bloggi undir eiginnafni, en aðeins þeir einstaklingar sem skrifa undir nafni eru birtir á forsíðu mbl.is.
En hugmyndin er samt að notendur geti séð hver raunverulegur “ábyrgðarmaður” eða viðmælandi í athugasemdum sé í raun og veru.

Allavega…

Sumir einstaklingar sem að skrifa undir nafni eru duglegir við að fordæma þá sem koma ekki undir nafni.
Þessir sömu einstaklingar leggja oft málefnin til hliðar þegar kemur að þessu, og neita að ræða eða taka þátt í umræðum nema þeir geti flett upp lögheimili viðmælanda síns.
Og nú langar mig að taka smá sýnidæmi…

Jón Valur Jensson (JVJ) er dæmi um einstakling sem lokaði fyrir allar athugasemdir á blogginu sínu nema að hann geti séð kennitölu viðmælanda síns.
Ástæðan fyrir því var  (að eigin sögn): principalafstaða, og að menn semi tali undir nafnleynd séu orðljótari og dónalegri en aðrir.
Það má auðveldlega færa rök fyrir að nafnlausir leyfi sér meira í skjóli nafnleyndar, en einnig má auðveldlega færa rök fyrir að nafnleynd er stundum nauðsynleg.

JVJ er einstaklingur sem að ég hef einstaka sinnum verið málefnalega sammála (minnir að ég haf einhverntímann einusinni séð grein eftir hann sem ég samsinnti) en mestmegnis hef ég verið honum ósammála.

Ég hef hinsvegar ekki átt í neinum samræðum eða rökræðum við hann, og það er af tvennum ástæðum:

 1. Ég er ekki skráður notandi á moggablogginu, og get því ekki gert athugasemdir við vegginn hans. (En ég gæti hinsvegar tekið þátt í umræðum þar sem hann lætur til sín taka á öðrum bloggum þar sem ég hef leyfi til að tjá mig sem “utanaðkomandi”.
 2. Samkvæmt minni prívat og persónulegu skoðun þá er Jón Valur Jensson öfga(trúar?)maður.

Skoðun mín á JVJ byggist nær eingöngu á skrifum hans í íslenska fréttamiðla og pistlum á blogginu hans.
Skv minni skoðun á manninum þá virðist hann vera blindaður af bæði eigin ágæti og trú.

Og afhverju vill ég ekki rökræða við einstakling sem ég tel vera öfgamann?

Jú, öfgamenn taka ekki rökum, og þeir horfa framhjá þeim eða snúa útúr þeim rökum sem henta ekki þeirra málstað.
Og ef í harðbakkan slær þá slíta þeir einhverja setningu úr trúarriti sínu algjörlega úr samhengi og henda henni fram sem stuðning við sinn málstað.
Það þýðir oft ekki að ræða við öfgamenn, og öfgahópar eru oft mjög svipaðir óháð trúarbrögðum.
Þannig að í sjálfu sér er enginn gífurlegur greinarmunur á “kristnum” öfgahóp, öfgahóp gyðinga eða öfgahóp muslima. Eða aðra öfgahópa (t.d. rasista).
Og þess lags hópa myndi ég ekki vilja lenda “á móti”, amk ekki undir nafni. Slíkt gæti reynst hættulegt heilsu minni.

En svo ég komi aftur að nafnleyndinni.

Á bloggsíðu Vinstrivaktarinnar á moggablogginu voru menn að byrja að rífast og rökræða um ágæti ESB.
Jón Valur Jensson tók þátt í umræðunni ásamt einstakling sem kallaði sig “Ásmundur”.

Nú vildi svo til að þeir höfðu sitthvora skoðunina. Jón Valur er á móti ESB á meðan Ásmundur er hlynntur ESB.
Vandamálið var hinsvegar það að Ásmundur var ekki skráður notandi, og því gat Jón Valur ekki sannreynt kennitöluna hans.
Þetta fór svo mjög fyrir brjóstið á JVJ að hann fór að leggja meiri og meiri áherslu á persónuna “Ásmund” heldur en málefnið “ESB”. Af stað fóru ágiskanir um hver “Ásmundur” gæti verið með það að leiðarljósi (að svo virtist) að hægt væri að ráðast á persónuna í staðinn fyrir málefnið.

Hversu langt haldið þið að Jón Valur hafi verið tilbúinn að ganga í þessari leit að persónuninni “Ásmundur”?
Eftir að hafa skrifað langa athugasemd um ágæti þess að loka á þá sem hann veit ekki kt hjá, þá kom þetta:

Semsagt, ef þið náðuð þessu ekki.
Jón Valur fór á Já! (ja.is) og leitaði að téðum Ásmundi.
Hann valdi svo einn Ásmund af handahófi og taldi hann vera viðmælanda sinn.
Því næst tekur hann upp símann og hringir í þennan Ásmund, í þeirri tilraun að sannreyna hver viðmælandi sinn er.

Hvað hefði gerst ef að JVJ hefði hitt á réttan einstakling? Það einn má guðinn hans JVJ vita.

Þetta er, í hnotskurn, ástæðan fyrir því að fólk ætti að varast að skrifa undir nafni.

Þegar menn eru komnir á það stig að öfgarnar eru þannig að þeir eru farnir að hringja í menn að handahófi í örvæntingu sinni til að komast að kennitölu og lögheimili viðmælenda sinna þá einfaldlega ber að varast þá.
Ætli hann haldi til haga bókhaldi yfir nöfn og kennitölur þeirra sem eru honum ósammála eða trúlausir?
Hvað næst? Mæta heim til fólks? Senda einhvern heim til fólks? Ég þori ekki að hugsa þessa hugsun til enda.

JVJ skrifar einnig á bloggsíðunni sinni að menn sem eru honum ósammála (aðallega um trú) séu að “halda uppi geðslegri rógsherferð” gegn honum.
Og hann mun eflaust setja þessa bloggfærslu í sama hóp.
En mér sýnist hann sjá alveg um þetta sjálfur…

 

 

 

2 thoughts on “Nafnbirting”

 1. Eg er sammála þér að fólk hefur fullt leyfi til að skrifa undir nafnleynd og líka að Jón Valur gengur allt of langt í þessum kröfum sínum um nafnbirtingu. En það er rangt sem þú segir um umræðurnar í pistlinum að ofan, þær snérust ekki um að hinn svokallaði Ásmundur væri ekki með sömu skoðun og Jón Valur eða hinir, heldur það að maðurinn blekkir og segir ósatt og rangt frá staðreyndurm málsins. Hann vinnur fyrir ESB gegn fullveldi og sjálfstæði Íslands. Það sæirðu ef þú læsir mikið af skrifum hans undir mörgum pistlum Vinstrivaktarinnar.

 2. Þér skjátlast, Bitur. Ég veit ekkert um kennitölur Moggabloggara, leita þeirra ekki. Á höfundarsíðu þeirra sjá hins vegar allir rétt nafn þeirra skv. þjóðskrá (en kennitölu ekki getið).

  Þar að auki tók ég engan Ásmund af handahófi, enda kallaði hann sig yfirleitt Ásmund Harðarson framan af í athugasemdum sínum á Vinstrivaktinni.

  Um prívatálit þitt, manns á öndverðu máli við mig um kristna trú, hirði ég ekkert.

Leave a Reply

Your email address will not be published.