Af sorpi (saga Útvarps Sögu)

Þetta er ekki pistill um sögu Úvarps Sögu en verði sá pistill einhvern tímann skrifaður þá væri þessi titill viðeigandi.

Hann virðist vera ansi sérstakur þjóðflokkurinn sem hlustar á Útvarp Sögu. Stór hluti af honum er reyndar fólk sem lítur á stöðina og viðhorfin sem þar koma fram þegar hlustendur hringja inn og kjósa í skoðanakönnunum á vefsíðu stöðvarinnar sem skemmtiefni. Mig minnir að bæði Jón Gnarr og Þorsteinn Guðmundsson séu yfirlýstir aðdáendur stöðvarinnar.

Skoðanakannanir stöðvarinnar eru mjög merkilegar. Frjálslyndi flokkurinn fær yfirleitt um og yfir 30% fylgi meðal þátttakenda í þeim sé spurt um stuðning við stjórnmálaflokka. Spurningarnar í könnununum eru líka oft ansi merkilegar. Eins núna fyrr í vikunni.

Þeim datt s.s. í hug, snillingunum á Útvarpi Sögu, að spyrja að því hvort að samkynhneigðir særði blygðunarkennd fólks. Þetta er ekki grín. Spurningin var orðrétt: ‘Særa samkynhneigðir blygðundarkennd þína’. Og næstum því helmingur þeirra sem tóku þátt í þessar könnun svöruðu játandi. Rjómi samfélagsins er greinilega í aðdáendahópi Arnþrúðar Karls.

Hvernig getur samkynhneigð sært blygðunarkennd einhvers? Og hverjum dettur í hug að spyrja svona spurningar? Andrés Jónsson á Eyjunni.is veltir því fyrir sér hvort að þarna hafi stöðin gerst brotleg við lög og í kommentum er bent á að eins mætti spyrja hvort að svertingjar særðu blygðunarkennd fólks.

Er það ekki oftast hegðun fólks sem særir blygðunarkennd einhvers? Ætli sá sem samdi spurninguna haldi að samkynhneigð sé hegðun? Eða ætli hann sé bara fífl?

———————-

Hugmyndir að spurningum í skoðanakannanir Útvarps Sögu:

Særir svart fólk fegurðarskyn þitt? Eiga rauðhærðir að hafa sömu réttindi og venjulegt fólk? Konur, með eða á móti? Eiga múslimar að fá að hafa ökuréttindi?

Að keyra á Akureyri

Ég hef náms míns vegna þurft að fara til Akureyrar einu sinni í mánuði þessa önn, og á eina ferð eftir í næsta mánuði. Þar sem það kostar handlegg og fótlegg að fljúga auk þess sem það skerðir ferðamöguleika manns að vera bíllaus hef ég keyrt á Aygonum þessi þrjú skipti og mun væntanlega gera slíkt hið sama í næsta mánuði.

Ferðirnar norður hafa gengið vel, í fyrsta skiptið var meira og minna autt utan stöku hálkubletta norðanmegin, en í hin tvö hefur verið hálka á heiðunum og blettir hér og þar annarstaðar. Það er meira að segja þannig að fyrir utan febrúarferðina (ferð númer 2) þá hefur verið erfiðara færi inn á Akureyri en á leiðinni þangað. Þetta kemur til af tveimur ástæðum.

Sú fyrri er þrákelkni Akureyringa gegn því að dreifa salti á göturnar í snjó og hálku. Þeir vilja það ekki því að það fer svo illa með ryðvarnir á undirvögnum bíla. Reyndar hefur verið í gangi tilraun þar sem blöndu af salti og sandi hefur verið dreift en það bara virkar voða illa virðist vera. Afleiðingarnar af því að dreifa frekar sandi en salti eru þær að gripið lagast einungis tímabundið og öfugt við saltið þá hefur sandurinn engin önnur áhrif á snjóinn og klakann önnur en að mynda drulluslabb þegar hlánar. Einnig er svifryksmengun á Akureyri með því mesta sem gerist á landinu vegna þessa því að sandurinn, þó að ekki sé hann beinlínis fínn, mylst niður og þyrlast svo upp í loftið.

Seinni ástæðan er sú að af einhverjum ástæðum virðast starfsmenn bæjarins og aðrir sem sjá um að skafa snjóinn af götum bæjarins bara ekki kunna það. Ég gat allavega ekki merkt mikinn mun á götunum milli daga, nema jú að það var búið að ryðja örþunnt lag af nýföllnum snjó af þeim og þjappa restinni betur saman.

Ég hef búið á Akureyri og haft mikil samskipti við fólk þaðan í gegnum tíðina og ég veit alveg hvaða svör ég fæ þaðan, að ég kunni bara ekki að keyra frekar en hitt ‘liðið’ að sunnan. En þetta bara snýst ekkert um það. Ég kann alveg að keyra í hálku, mér finnst það bara óþægilegt því að þó að ég treysti sjálfum mér ágætlega til að meta aðstæður rétt þá get ég ekki frekar en aðrir treyst á að fólkið í kringum mig geri slíkt hið sama. Það var enda nóg að gera hjá lögreglunni á Akureyri seinustu daga og það fyrsta sem ég sá þegar ég keyrði inn í bæinn (þ.e. yfir Gleránna, svo að ég böggi þorparana nú aðeins) var jú einmitt aftanákeyrsla á ljósunum við Glerártorgið. Ekki seinasti áreksturinn sem ég varð var við þessa 3 daga sem ég var í bænum.

Ef ég mætti velja á milli þess að stytta líftímann á ryðvörninni á bílnum mínum eitthvað aðeins eða að sleppa við hættuna sem fylgir svona færi, svo ekki sé minnst á svifrykið, þá vel ég frekar seinni kostina. Og vona að það verði komið vor þegar ég fer norður næst.

Leiður

Ég er eiginlega varla bitur, meira leiður. Ég fyllist svona eiginlega bara hálfgerðu vonleysi á það að við sem tegund séum virkilega ekki komin lengra en þetta.

Gay Pride hefur lengi farið rosalega í taugarnar á þeim sem telja sig hafa meðhöndlað hinn eina sanna kærleika, en í honum er víst kveðið á um ákveðið óþol gagnvart þeim sem neita að haga lífi sínu eins og forstöðumönnum hinna og þessa trúfélaga hentar. Almennt er samkynhneigð mikill þyrnir í augum alvarlega trúaðs fólks. Flest neitar þetta fólk því að því sé illa við samkynhneigðina og segir að guð (því að þetta fólk hefur auðvitað engir einkaskoðanir á neinum málum, það bara endurspeglar það sem guði finnst, en merkilegt nokk þá er guð alltaf sammála forstöðumönnum og helstu predikurum þeirra safnaða sem þetta fólk fyllir) hati ekki syndgarann sjálfan heldur syndina sem slíka. Þetta fólk telur sig jú boðbera umburðarlyndis og kærleika. Continue reading “Leiður”

Smekkleysi

Biskup þjóðkirkjunnar og ýmsum öðrum kristnum einstaklingum finnst 3G auglýsing símanns ósmekkleg. Persónulega skil ég það engan vegin. Þessi auglýsing er ekki gerð með illum huga og ekki hugsuð til þess að gera lítið úr trú eins né neins. Þarna er unnið út frá ákveðnum atburði sem sumir trúa að hafi átt sér stað en aðrir efast um.

Biskup þjóðkirkjunnar hefur verið sakaður um skort á umburðarlyndi og margir eru voða sárir yfir því. En er það eitthvað nýtt að Karl Sigurbjörnsson eigi erfitt með að sætta sig við þá sem deila ekki hans skoðunum á því hvað sé rétt og rangt? Hann hefur oft haft það á orði að trúleysingar og trúleysi sé mein á samfélaginu og jafnvel gengið svo langt að tala um trúleysi sem rót hins illa. Ber það vott um að hann hafi umburðarlyndi gagnvart þeim fjölda fólks sem ekki tilheyrir trúarbrögðunum hans? Hann hefur talað um að ef að samkynhneigðum verði leyft að giftast þá jafngildi það því að kasta stofnuninni hjónabandi á ruslahaugana. Umburðarlyndi indeed.